VEÐURÚTLIT FYRIR KJÖRDAG (5) -fimmtudagur

VEÐURÚTLIT FYRIR KJÖRDAG (5) -fimmtudagur

Ef eitthvað er hefur spáin heldur versnað austanlands og bakkinn með snjókomunni fyrr á ferðinni.

En veðrið gengur mikið niður aðfararnótt sunnudags

Spá Veðurstofunnar  í dag fimmtudag, er svohljóðandi.   

Á laugardag:
Norðaustan 13-20 m/s, hvassast suðaustantil, en 8-13 sunnantil. Snjókoma á austurhelmingi landsins, og él um landið norðvestanvert, en yfirleitt þurrt suðvestanlands. Frost 0 til 8 stig. Dregur úr ofankomu undir kvöld.

Bakki lægðarinnar í suðri kemur inn yfir Suðausturland og Austfirði strax annað kvöld. Reiknað er með samfelldri snjókomu austan Mýrdalssands. Að morgni laugardags er spáð ofankomu allt norður til Eyjafjarðar. Til lánsins virðist ekki ætla að vera tiltakanlegur vindur með þessu framan af degi og því ekki skafrenningur að ráði.


Á móti kemur að snjókoman verður þétt, einkum á Austfjörðum.  Fyrsta kortið sýnir spákort Veðurstofunnar kl. 12 á hádegi. Spáð ofankomu um nánast allt austanvert landið.  Kemur fram þekkt hliðrun og í þessum spákortum og ýkt hlésvæði, t.d. í Eyjafirði og á Ströndum.

Nokkuð eindreginn kuldi verður með þessu og hiti undir frostmarki. Það er aðeins með bláströndinni á milli Öræfa og Hornafjarðar þar sem rétt svo nær að bleyta ef af líkum lætur.

Uppsöfnuð úrkoma verður að öllum líkindum umtalsverð. Á kortinu kemur fram uppsöfnun til miðnættis á laugardag. Að langmestu frá því kl. 21 annað kvöld.  Sjá má að spáð er allt að 50-100 mm á norðanverðum Austfjörðum. Annað svæði með mikill áveðursúrkomu er austan undir Öræfajökli á Breiðamerkursandi. Þar gæti sett niður ókjör af blautum og þungum snjó eða krapa.

Á Fjarðarheiði er sólarhringsúrkomu spáð: 29 mm (64mm) – tölur úr spá Bliku í sviga.

Í Neskaupstað: 36 mm (71 mm).

Á Höfn: 17 mm (45 mm).

Spákerfi Bliku gerir ráð fyirr því að kjarni skila lægðarinnar nái í meiri mæli inn á austanvert landið. Má þarna litlu muna.   Uppsafnaða úrkoma sem reiknast á þessum spákortum gæti líka kallað á snjóflóðaviðbúnað á Austfjörðum?

Mesti vindstrengurinn heldur sig skammt undan landi skv. spánum. þar má ennig litlu skeika. Engu að síður er því samt spáð að vindur fari vaxandi þegar líður á daginn. Hvessir þannig t.d. á Austfjörðum að nýi snjórinn tekur að fjúka í skafla og hætt er við að ófært verið innanbæjar á fjörðunum og eins í kring um Egilsstaði. Á Fjarðarheiði má reikna með 12-15 m/s allan daginn, en meiri óvissa hvort vindur nái sér upp á Fagradal svo fremi að áttin verði ekki á hánorðan.

Ef við túlkum vindaspána bókstaflega eins og hún lítur út nú eru skeinuhættir sviptivindar skammt austan Hafnar líklegir síðari hluta dagsins og fram á nóttina. Og e.t.v. víðar á sunnanverðum Austfjörðum

Óvissan er nú einkum að tvennum toga:

1. Hversu vont verður veðrið? Gæti snjóað af meiri ákafa og hríðin orðið dimmari. Það er líka inni í myndinni að veðrið verði ívið skárra en reiknaðar spár gefa til kynna. Að lægðin og skilin fari ívið austar.  

2. Hvað mun skilar sér af snjó norðanlands, frá Eyjafirði og vestur á firði?