VEÐUR DAGANA FYRIR SNJÓFLÓÐIN

VEÐUR DAGANA FYRIR SNJÓFLÓÐIN

Snjóflóðahrinan á Vestfjörðum í vikunni var dæmigerð.  Lausasnjór til staðar í fjöllum, NA-illviðri í 2 til 3 sólarhringa með talsverðri ofankomu.  Við þau skilyrði skefur fram af eggsléttum fjöllunum og fram af brúnum.  Fyllir gil og skálar og áður en veðrinu slotar hleypur úr mörgum þekktum farvegum á Vestfjörðum, einkum þar sem hlíðar snúa mót suðvestri.

Þegar þetta er skrifað er ekki enn komin yfirsýn yfir öll þau flóð sem féllu.  Eðlilega hefur verið mest verið fjallað um farvegina tvo ofan Flateyrar og í Súgandafirði gegnt byggðin þar.  En flóð féllu miklu víðar, á Hvilftarstönd í Önundarfirði, nokkur flóð voru mokuð í Djúpinu, s.s. í Fossahlíð í Skötufirði, undir Eyrarhlíð í Skutulsfirði og vafalaust koma menn auga á ummerki eftir fleiri flóð á fáförnum slóðum og til dala á næstu dögum.

Miklar snjóflóðahrinur eins og þessi verða á að giska á um 10 til 20 ára fresti.  Vissulega falla snjóflóð á öðrum tímum, stöndum stök eða í minni hrinum. En stóru hrinurnar eru afleiðing af aftakaveðri í NA-átt sem oftast stendur yfir í dag.  Á því eru þó undnantekingar. 

Nánar um veðrið

Segja má að NA-áttin hafi skollið á að morgni sunnudagsins 12. janúar og staðið linnulaust þar til um miðjan dag 15. janúar, eða í rúma 3 sólarhringa.  Stóru flóðin sem tímasett eru í Önundarfirði og Súgandafirði féllu þegar veður hafði staðið í um tvo og hálfan sólarhring.

En mikið snjóaði líka í vikunni áður, oftast með NA-átt. Svo sem:  4. jan, 7. jan, 8. - 9. jan (í SV-átt) og mikil ofankoma var 10. til 11. jan samfara illviðrislægðinni sem fór skammt fyrir vestan land. Þann 11. sást til minni snjóflóða í Innra- og Ytra Bæjargili utan Flateyrar og eins í Súgandafirði, m.a. ofan Norðureyrar.

Í töflunni eru sýndar vindmælingar á Þverfjalli við Botnsheiði upp af Skutulsfirði og Súgandafirði.  Mælirinn var í gangi allan tímann og ekki ísaður eins og stundum gerist á veturna.  Sjá að kl. 09 á sunnudag bætir hressilega í mælast 23 m/s.  Þá fljótlega teppast margir vegir í grenndinni þegar skefur í þá ásamt ofankomu og blindu. 

Snjókoman er metin út frá veðurspákortum.  Hún er slumpuð eftir reynslu af aflestri slíkra korta, en ógjörningur er að mæla hana með úrkomumælum í slíku veðri. 

Sjá má að mikið snjóaði seinnipart sunnudags og fram á mánudagsmorgunn.  Þá dró úr henni en á móti bætti í vindinn. Höfum hugfast sýnt hefur verið fram á að snjóflutningur verður í þriðja eða fjórða veldi af vindhraðanum.  Veðurhæðin var um tíma óskapleg til fjalla, 25-30 m/s til fjalla á mánudag. Kortið sýnir áætlaða vind í spá kl. 15 á mánudag. Þá 25-27 m/s á Botnsheiði og hvassara á Þverfjalli, en það skagar upp úr.

Þegar skil djúpu lægðarinnar nálguðust úr austri aðfararnótt þriðjudagsins jókst ákefð snjókomunnar og enn var veðurhæðin nokkuð yfir 20 m/s. Fyrstu snjóflóðin tóku að falla s.s. úr Eyrarhlíð um miðjan daginn.

Út frá spákortum má áætla úrkomumagnið um 70-80 mm frá því á sunnudagsmorgunn og þar til stóru flóðin féllu, ákafast á mánudagsmorgunninn og þá um 10 mm á 6 klst. Þetta er umtalsverð úrkoma, en hafa verður í huga að mikið hafði snjóað allt frá 4. janúar og ekki gert neinn blota til fjalla, frá á gamlársdag. Slíkt hefði dempað flutning á þeim snjó sem fyrir var.

Niðurlag

Snjóflóðahrinan var nokkuð dæmigerð þegar upp er staðið fyrir slíkar á norðanverðum Vestfjörðum.  Óveður stóð samfellt í um 3 sólarhringa og að auki hafði fallið umtalsverður snjór dagana á undan. Fjöldi snjóflóða féll og sum með þeim stærstu sem mæld hafa verið.  Óvissustigi var lýst yfir á Veðurstofunni um miðjan dag þann 12 og hættustigi á norðanverðum Vestfjörðum í kjölfar stóru flóðanna sem féllu á þriðjudagskvöldið.  Gefin var út appelsínugul viðvörun hjá Veðurstofunni á hádegi á mánudag.  Í ljósi umfangs og alvarleika snjóflóðanna og því hversu fátíð slík hrina er í raun með á að giska 10 til 20 ára endurkomutíma, má alveg velta fyrir sér ástæðum þess að ekki var gefin út rauð viðvörun fyrir Vestfirði?