VANDI SEM FYLGIR VIÐVÖRUNUM

Á N-Mæri í vestur
Noregi féllu skriður í miklum rigningum um helgina. Rýma þurfti hús og flytja 13
manns í skjól í mikilli skyndingu eftir að dimmt var orðið. Sem betur fer fór
allt vel, engin slasaðist, en eignatjón nokkurt eins og búast mátti við.
Fréttir í NRK og
viðbrögð heimamanna eru okkur hér dálítil lexía.
Fyrir helgi gaf
norska Veðurstofan út gula viðvörun vegna mikillar rigningar, 40-60 mm á 24 klst
og staðbundið allt að 80 mm á syðst í Þrændalögum og nyrst á Mæri. Einmitt þar
skapaðist hættan um helgina.
Þarna er dæmigert
norskt fjarðalandslag með böttum fjöllum og þröngum fjörðum. Þegar rignir af
miklum móð fellur úrkoman síður en svo jafnt yfir. Við þekkjum þetta mjög vel t.d.
suðaustanlands og á Austfjörðum þar sem mesta rigningin undir bröttum fjallshlíðum
hittir ekki endilega í úrkomumælana.
Í Sunndal þar sem
aurskriðurnar féllu segja heimamenn að ekki hafa verið varað nægjanlega við
úrhellinu sem hefði komið mönnum í opna skjöldu þar sem aðeins var gefin út gul
rigningarviðvörun. Segja að hættan nú hafi verið meiri en í óveðri sem gekk
yfir með vindi og mikilli úrkomu og snjó til fjalla sl. vetur rauð veðurviðvörun
gefin úr fyrir landshlutann í heild sinni.
Viðbúnaður var þá við hæfi og íbúar vel undirbúnir.
Veðurfræðingur á
Norsku Veðurstofunni, Met.no bendir hins vegar á það að gula viðvörunin hafa
verið rétt fyrir svæðið sem um ræðir, en hún felur það í sér að rignt gæti
staðbundið mun meira. Menn treysti sér einfaldlega ekki til þess að spá og gefa
út viðvarandi fyrir hvern stað eða sveitarfélög fyrir sig. Ráðamenn sveitarfélaganna verði einfaldlega að
horfa á gular viðvaranir að alvöru og taka óvissuna með í reikninginn.
Hér er þetta sama
vandamál uppi, spásvæðin eru stór og ekki gefin út viðvörun t.d. fyrir staðbundið
mikla rigningu segjum á Eskifirði eða Reyðarfirði, nema að allt spásvæðið
Austfirðir fylgi með. Eins ef varað er
við slæmu hviðuveðri undir Eyjafjöllum og Mýrdal fylgir viðvörun um gjörvalt
Suðurland frá Reykjanestá austur í Lón.
Elín Björk Jónasdóttir á Veðurstofunni lýsir þessum vanda vel í viðtali
við Samfélagið á Rás 1 í síðustu viku (byrjar á 25:00). https://www.ruv.is/utvarp/spila/mannlegi-thatturinn/23616/7hlflj
En það má alveg gera betur. T.d. ef menn hafa vissu um þá staði þar sem rignir meira og metið með samfélagslegum áhrifum að færa litakóðann upp – að hafa appelsínugult inn í gula svæðinu eins og hefði verið skynsamlegast í rigningunni í Noregi um liðna helgi. Mestu skiptir að koma sem gleggstum spáupplýsingum til almennings og viðbragðsaðila. Þær mega stundum vera aðeins ítarlegri og flóknari ef út í það er farið.
*Viðbót kl. 14:50.
Birtar úrkomumælingar og kortið sýnir uppsafnaða úrk. tveggja sólarhringa. Allmikið magn verður maður að segja!