ÚTLIT FYRIR MILDAR NÆSTU TVÆR VIKUR
Ný langtímaspá Evrópsku reiknimiðstövararinnar er mjög
eindregin. Linnulítið aðstreymi verður af mildu lofti með uppruna úr suðri
og suðaustri.
Sjá má á frávikakortum skýr jákvæð hitafrávik yfir landinu bæði
í næstu viku og einnig í þeirri þar næstu. Lok hennar markar síðan upphaf aðventunnar.
Rigning verður skv. sömu spá fremur mikil suðaustan- og austantil, en úrkomuvar fyrir norðan a.m.k. fyrri vikuna. Ekki þarf að koma á óvart að ríkjandi vindáttir í þessari stöðu verða á milli suðurs og austurs.
Í komandi viku má þannig sjá í öllum veðurspám “öfuga” hringrás loftsins þar sem ekki færri en
þremur lægum er spáð úr suðaustri. Sú fyrsta fer til norðvesturs fyrir sunnan
land en hinar koma frá Skotlandi og yfir
Ísland.
Trúlega verður hitinn lengst af 2 til 4 stigum ofan meðalhita
nóvember næstu tvær vikurnar og nokkuð jafn hiti og há frostmarkshæð með þessu
eindregna og óvenju þráláta aðstreymi með mildu lofti. Þ.e. ef þetta gengur allt
saman eftir! Fyrstu 10 dagana í nóvember
er hiti þegar 1,4 stigum yfir meðallagi
í Reykjavík og 1,9 yfir á Akureryri.
Enn verður því bið á því að fyrsti snjórinn sýni sig suðvestanlands. Litlar líkur næstu tvær vikurnar. Ekki þó alveg útilokað aðfararnótt
föstudagsins eftir viku þegar kólnar á milli lægða. En þá þurfa líka tveir til þrír þættir að
hitta saman!