TRÚLEGA MESTA KULDAKAST Í RVK FRÁ 2013

TRÚLEGA MESTA KULDAKAST Í RVK FRÁ 2013

Norðan loftið sem steypist yfir okkur næstu daga er hreinræktað heimskautaloft. Kjarni þess fer suður yfir vestanvert landið. 

Vetrarkuldi er almennt í stórum dráttum  af tvennum toga: Annars vegar þegar er hæglátt og stjörnubjart. Yfirborðið kólnar og frost í 2 m hæð mælist mikið.  Ofar er oft hlýrra og því ekki endilega svo kalt loft á ferðinni.  Hin gerðin er þegar loftið kemur frá köldum svæðum með strekkingi og stundum hvassri norðanátt.  Þá mælist kannski ekki jafn mikið frost, en það bítur í vindinum.

Þannig er það einmitt nú.  Á höfðuðborgarsvæðinu verður á fimmtudag og föstudag um 6 til 7 stiga frost og vindur um 10 m/s. Í N-átt verður  hvassast vestan Kvosarinnar og út á Seltjarnarnesi og Álftanesi.  Þá heldur minna frost.  Austar er aukið Esjuskjól, en meira frost á móti.

Nú er kannsi þörf á að dusta rykið af vindkælingartöflum.  -7°C kl. 12 á fimmtudag kl. og þá um 10 m/s við Veðurstofuna.  Jafngildir nærri -16°C.  Sé horft á vindinn saman með kulda loftsins þarf líklega að fara aftur til 2013  (4-6 des.)  til að finna eitthvað sambærilegt.  Þá var vindur heldur hægari, en  meira frost.  "Kuldagæði"  hins vegar svipuð.  Mun kaldari tilvik má auðveldlega finna áður fyrr á árum s.s á milli 1965-1985. 

Ef til vill er þörf á kuldaviðvörun þar sem dúða þarf leikskólabörn sérstaklega á fimmtudag og föstudag (kalt fram á laugardag) og aðrir úti við hugi að skjólgóðu höfuðfati og hlýjum vetrarskóm.  Ullarvetlingar koma líka í góðar þarfir.



* Fyrra kortið er spákort ECMWF sem sýnir í litum hita í 850 hPa  og seinna kortið spákort GFS af WXcharts.  Það sýnir vindhraða kl. 12 á fimmtudag.  N-strengurinn er breiður og nær norðan úr Ballarhafi langt suður fyrir Ísland.