SPÁÐ Í RIGNINGARNAR NÆSTU DAGA

SPÁÐ Í RIGNINGARNAR NÆSTU DAGA

Útlit er fyrir marga rigningardaga suðaustanlands í vikunni og jafnvel lengur.

Suma daga mun rigna af talsverðri ákefð og aðra minna.  Hugurinn leitar til september 2017 en þá undir lok mánaðarins voru aftakarigningar á þessum sömu slóðum. Þá eyðilagðist brúin yfir Steinavötn í Suðursveit og mikið vatn olli flóðum á Austurlandi s.s. í Álftafirði, en ekki síður handan vatnaskilanna yfir í Fljótsdal.

Skoðum nokkur kort.

1.

10 daga spá um uppsafnaða úrkomu á mánudagsmorgni, gefur til kynna margfalda meðalúrkomu suðaustanlands samfara því að meðalvindátt er að jafnaði SA.

2.

Sama spá, en hér fyrir 500 hPa þrýstiflötinn.  Háloftalægð verður að jafnaði suðvestur í hafi og hár flötur yfir Skandinavíu. Vindáttin í háloftunum við þessar aðstæður  SA-læg yfir lengri tíma. Hún ber lengst af  rakt loft upp að Suðausturlandi og Austfjörðum. Rakinn þéttist þar áveðurs við fjöllin og jöklana.

3

Drjúgri uppsafnaðri úrkomu er spáð frá mánudegi til kl. 18 á miðvikudag.  Hvað mestri frá Öræfajökli og austur á Reyðarfjörð.  Á þessu 60 klst tímabili verður hún hvað áköfust framan af morgundeginum (þriðjudagur). 


4.

Sé skoðaður sérstaklega fljótandi hluti úrkomunnar ásamt reiknuðu leysingavatni úr sama líkani og fyrir sama tímabil, blasir við nokkur önnur mynd. Þrátt fyrir að hlýtt sé í veðri fellur úrkoman sem snjór eða krapi ofan 800- 1.100 m.  Sú staðreynd dregur mjög úr afrennslinu til vatnsfalla ofan úr fjöllum. Breytir því ekki að almennir vatnavextir verða og mjög hætt við að los komist á laus efni neðantil í hlíðum.

5.

Síðasta kortið er úr öðru líkani og sínir rakaflæðið á N-Atlantshafi eins og það birtist okkur nú í morgun. Líkist helst bugðóttri á sem hlykkist hingað norður eftir lengs sunnan úr Atlantshafi skammt norðan miðbaugs.


En verður vatnsaginn nú eins afgerandi og slæmur og var haustið 2017? 

Líkast til ekki og vantar nokkuð upp á. Í  fyrsta lagi féll úrkoma þá fyrr að haustinu og alfarið sem rigning upp á hæstu jökla. Afrennsli var því meira. Þó úrkoman þó hefði dreifst á nokkra daga og fallið á vatnsmettaða jörð líkt og nú, munaði mestu um mjög ákaft regn í einn sólarhring, allt að 170 mm  sunnan í Vatnajökli og syðst á Austfjörðum.  Engar slíkar tölur eru í spám allra næstu daga, þ.e. alfarið sem fljótandi vatn. Hins vegar er spáð áframhaldandi rigningum um komandi helgi fram á mánudag og of snemmt að spá í ákefðina og úrkomumagnið þá.