SÉRLEGA LÍTILL SNJÓR ER Á HÁLENDINU

SÉRLEGA LÍTILL SNJÓR ER Á HÁLENDINU

Fullyrða má að sjaldan hafi jafnlítill snjór verið á hálendunu í byrjun maí og er nú. Svipað var reyndar ástatt 2019 og þótti þá með nokkrum ólíkindum.

Góðu veðurskilyrðin í gær, 3. maí, gáfu okkur færi á því að skoða tunglmyndir ofan í kjölinn. Ein rásin sýnir snævi þakið yfirborð.

Á henni sjáum við vel hvað snjófyrningarnar eru litlar á hálendinu. Nánast snjólaust á Kili og eins á söndunum og öræfunum víðfemu norðan Vatnsjökuls. Vissulega snjór í fjöllum ofan 800 -1.000 m eða svo. Þó það nú væri í vetrarlok!

Snjódýptarkort úr 750 m líkani Veðurstofunnar rímar líka vel við myndina.

Aðgengileg vefmyndavél úr Veiðvötnum í um 550 m hæð segir líka sína sögu um lítinn snjó á þeim slóðum.

Ástæðurnar eru einkum þrjár:
1. Almennt hefur lítið snjóað til fjalla í vetur, ekki síst eftir áramót.

2. Í leysingunni löngu í febrúar og fram í mars tók upp snjó, einkum neðan um 800 m.

3. Apríl var sérlega hlýr með ákveðinni vorleysingu. Að auki fremur þurrt.


Á Hvervöllum og í Veiðvatnahraun (ofan Þórisvatns) mældist 7 stiga hiti um miðjan daginn í sólinni í gær. Svo hár hiti þar bendir ekki bara til þessa að snjó hafa leyst, heldur er jarðklaki líka að mestu bráðnaður og jörð jafnvel tekin að þorna.

Í Sandbúðum efst á Sprengisandi var á sama tíma aðeins tveggja stiga hiti og lægri hitinn þar er svörun við snjó í umhverfinu og að sterkir geislar sólar fari enn í bráðnun íss, en ekki upphitun landsins, eins og á hinum stöðvunum tveimur.

2019 var Kjalvegur var opnaður fyrir almennri umferð 24. maí. Það var um það fjallað þá, að aldrei fyrr hefði vegurinn verið orðinn þurr og góður jafn snemma.

Aflaði mér upplýsinga um opnunardagsetningu Kjalvegar frá því 2002. Nokkrar dagsetningar eru ekki alveg nákvæmar eða staðfestar og eitt árið vantar í þessa samatekt.




Sjáum að 2004 var Kjalvegur opnaður um 28. maí (fyrir hvítasunnu). Þá rétt eins og nú og 2019 var aprílmánuðuður hlýr og vorleysing því snemma á ferðinni.

Spurningin nú er sú hvort Kjalvegur verði orðinn allur nægjanlega þurr upp úr 20. fyrir opnun hans? Veit að Vegagerðin á Selfossi fylgist grannt með.

En svo verðum við að hafa í huga að enn getur svo sem gert kuldakast og sett niður talsverðan snjó til fjalla!