ÖFLUGUR SKOTVINDUR YFIR LANDINU
Skotvindur (e. jet stream) er afmarkaður og stríður vindstrengur í 8-10 km hæð. Hann er oftast vestanstæður og hlykkjast stundum eins og ormur umhverfis norðurhvel jarðar. Að jafnaði liggur hann fyrir sunnan okkur, en á veturna er skotvindurinn síbreytilegur.
Á morgun hittist þannig á að skotvindurinn kemur til með að liggja yfir Íslandi og ekki nóg með það, hann verður sérlega stríður í kjarna sínum.
Fyrsta kortið er spá kl. 18, miðvikudag (12. jan) í 300 hPa þrýstifletinum. Það er í um 9 km hæð. Röstin kemur úr suðvestri og inn yfir landið. Í kjarna hennar er vindhraðinn yfir 200 hnútar (mælieiningin í siglingum og flugi). Samsvarar yfir 100 m/s.
Næsta kort sýnir vindhraðann nánar kl.15. Nokkra vindörvar eru með fjórum flöggum (4 x 50 hnútar) + fjaðrir til viðbótar, þ.e. 210-220 hnútar. Hvað hvassast yfir Breiðafirði og Hrútafirði. Það er ekki oft, en þó ekki óþekkt að skotvindur nái þessum styrk, en fremur fátítt. Gaman væri að gera frekari samanburð í þessum efnum.
En vissulega er þessi vindur hátt uppi og hefur helst áhrif á flug venjulegra farþegaflugvéla. Lengri flugtími og meira eldsneyti í Ameríkuflugin á morgun! Nær til þessi vindur til jarðar? Nei, en samt já að hluta. SV-átt kemur til með að blása í öllum lögum. Þriðja myndin sýnir einmitt þverskurð noðrur yfir landið (sjá litlu myndina uppi til hægri). Trausti Jónsson kallar það hes, þegar slæðist úr þessari sterku vindröst í átt til yfirborðs. Guli liturinn markar 32 m/s og sjáum hverni hesið leitar niður yfir og hlémegin fjalla, m.a. vegna bylgna sem myndast.
Þess vegna kemur vindur til með að ná stormstyrk 20 m/s jafnvel 25 m/s til fjalla á meðan á þessu stendur. Þetta er meginrastarveður til aðgreiningar frá lágrastarveðri sem t.d. er einkennandi fyirr SA-átt á unda skilum lægða.
Venjulegt yfirborðs veðurkort sýnir bratt þrýstisvið eða þrýstifallandaa þvert á skotvindinn. Frá Dyflinni til Scoresbysunds er þrýstibratti frá 1040 hPa í 975 hPa. Brattinn nemur 65 hPa og vitanlega verður því bullandi SV-átt á stóru svæði eins og sjá má.
Í raun má segja að það sé afgerandi hitafallandi eftir þessu sniði og vegna snúnings jarðar blæs vindur samsíða þrýsti- og hitafallandanum. Aflfræði lofthjúps í sinni tærustu mynd !
* Fyrri þrjú kortin eru af Brunni Veðurstofunnar, en það síðasta frá Bresku Veðurstofunni.