NÆSTU DAGAR - SPÁIN FYRIR FERÐAÞYRSTA (OG AÐRA)

Líklega var náð
hámarki í góðviðri og hita í dag í bili a.m.k. Spáin næstu daga býður upp á meiri
fjölbreytni og jafnvel nokkrar sviptingar í sumarveðrátttunni. Hæðarsveigja
straumsins í háloftunum og hlýtt loft að auki hefur tryggt gott sumarveður
norðan- og austanlands og víðar. Við fylgjumst nú
með lægðahvirfli í háloftunum sem nú er lengst inn yfir Íshafinu þar sem slíkir eiga heima á sumrin. Veðurspárnar gera hins vegar ráð fyrir útrás
hans til suðurs og austurs og eiginlega beint yfir okkur á sunnudag/mánudag. Á undan er minna lægðardrag og með því rigning á meðan það fer hjá.
Myndin er lýsandi
fyrir stöðuna í 500 hPa á hádegi dag hvern fram á mánudag og spákortin segja sína
sögu. Frá því um Jónsmessu(23. júní) höfum við að mestu verið
laus við lægðarsveigjuna, en með henni verður uppstreymi, skýjamyndunm og regn.
Hæðarsveigjan er hins vegar eftirsóknarverð!
Miðvikudagur, 21.
júlí: Ákveðin SV-átt, 8-13 m/s um
norðvestanvert landið. Fylgist með hviðuspánni! Sólskin um mest allt land, síst allra syðst. Mjög hlýtt norðan og
austanlands, en hámarkinu hefur víðast þegar verið náð.
Fimmtudagur, 22. júlí:
Skipist í tvö horn. Léttskýjað um
austanvert landið og hiti allt að 23 til 26 stig. Vestantil skýjað og suddi eða
rigning seinni partinn. Blástur vestantil, 7-10 m/s.
Föstudagur, 23. júlí:
S-átt, 5-10 m/s. Fyrra dragið mætir úr
vestri. Væta, fremur lítilsháttar
sunnan- og vestanlands og síðar einnig á Norðurlandi, en þurrt austanlands. Hiti þar allt að 20 til 24 stig.
Laugardagur 24. júlí:
Ómerkilegri lægð, en lægð samt er spáð úti fyrir Vestfjörðum. Skil með úrkomu á leið austur yfir, einkum
rignir sunnan og suðaustanlands, skúrir vestantil, en þurrt norðaustantil. Þar 17 til 23 stiga hiti framan af degi, en
síðan kólnar heldur.
Sunnudagur 25. júlí: S-átt, gola eða fremur hægur vindur. Óvissa
reyndar í spánum með vindinn! Skýjað og
hiti 10 til 14 stig víða um land. Slitrótt rigning eða skúrir einkum framan
af. Sólin nær í gegn austast á landinu
og þar heldur hlýrra.
Mánudagur 26. júlí:
Dragið í háluftunum yfir landinu og verðu á austurleið. Með því berst svalara loft, N-átt og klárlega
kólnandi veður um land allt. Víða
rigning eða skúrir, en enn að mestu þurrt A-lands sem og í Skaftafellssýslum.
Óvissan í safn-
eða líkindaspánum eykst verulega eftir mánudag. – Hvað verður um kuldahvirfilinn? Fyllist hann og hverfur með nýjum hæðarhrygg
úr vestri eða mun hann grafa um sig hér næst
landi? Eða eitthvað annað gæfulælegt fyrir verslunarmannahelgina?