JÚLÍHITI NA-LANDS Í HÆSTU HÆÐUM

JÚLÍHITI NA-LANDS Í HÆSTU HÆÐUM

Þegar 18 dagar eru liðnir af júlí 2021 reiknast meðalhitinn á Akureyri 14,3°C. Það er há tala.

Lítum til þess að til þessa er hæsta mánaðrgildi hita á nokkurri veðurstöð 13,7°C (Írafoss, júlí 1991).  Fremur fátítt er að meðalhiti mánaðar komist yfir 13 stig.  Nokkur dæmi eru þó um það.  Í júlí 1939 var hitinn 13,6°C á Hæli í Hreppum og hann reiknaðist 13,3°C á Akureyri í júlí 1933. Eflaust finnast í veðurgagnasafninu fleiri tölur á á svipuðu róli.  Vafasamara er meðaltal frá Valþjófstöðum í Fljótsdal blíðusumarið mikla 1880, 13,7°C í júlí og 14,0°C í ágúst.

Eftir 18 daga er staðan þessi:

14,4°C  - Hallormsstaður

14,3°C - Torfur, Akureyri, Mývatn og Grímsstaðir.

Spáð er áframhaldandi hlýindum á þessum slóðum alla þessa viku og fram í þá næstu.  Meiri óvissa eins og gengur með síðustu dagana í mánuðinum.

En það er vel raunhæfur möguleiki á því að mánaðarmet íslenskrar veðurstöðvar falli nú í júlí!

* Reikningar á meðalhita í ár eru ekki yfirfarnir og stuðst við "Daglegt brauð" af vefsvæði Traust Jónssonar þar sem finna má alls kyns samantektir upp úr rauntímamælingum. 

** Myndin er fengin af ruv.is