INN Í JÚNÍ - VEÐURHORFUR

INN Í JÚNÍ - VEÐURHORFUR

I

Fyrstu 8- 9 dagana í júní verða suðlægar vindáttir ríkjandi og fremur vætusamt svona heilt yfir, en þó engar stórrigningar og sæmilega þurrir dagar inn á milli.  Norðan- norðaustanlands verður hins vegar að mestu þurrt, en þó ekki alveg.  Þar er spáð fyrirtaks veðri á föstudag og laugardag ( 4. og 5.) og allt að 15-20 stiga hita.

II

Frá um 10. til 15 júní gera langtímaspár ráð fyrir nokkrum samliggjandi góðum sumardögum víða um land.  Um 60-70% líkur á því að háþrýstisvæði verði yfir landinu eða hér skammt norður og austur undan.  Stillt og sólríkt veður verður þá almennt.  Langtímaspá Bliku er reiknar þannig mestu líkur á þeim veðurflokkum sem gefa hvað best sumarveður norðan- og austanlands.

III

Mánaðarspá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar (ECMWF) gerir síðan ráð fyrir því að um 50% líkur séu að því að það kólni með N-áttum um og upp úr 17. júní.  Að 20-30 % líkur séu á því að hæð við landið stjórni áfram veðrinu og álíka að lægðir úr suðvestri fari að sýna sig og þá einkum í vikunni 20. til 27. júní.  

 

Þetta er svona til að gefa einhverja mynd af langtímaspánum eins og þær liggja fyrir nú!   

Kortið sýnir nýja mánaðarspá ECMWF fyrir frávik meðalhita viku 2,  7. til 14. júní.  Úrkomufrávik á því neðra.