HVERNIG VERÐUR VORIÐ?
Flestir sem ég hitti þessa dagana spyrja:- og hvernig verður svo sumarið?
Nokkuð langt í eiginlegt sumar og heil árstíð á undan,
nefnilega vorið.
10 daga meðalspá ECMWF frá í morgun, sem gildir út apríl, sýnir
mjög eindregna mynd. Hæðarsvæðið í suðaustri er á undanhaldi og vægi þess flyst
til vesturs og yfir Grænland. Í raun nýtt
hæðarsvæði.
Við það skiptir um vinddátt í háloftunum. Í stað hagfelldrar S- og SA áttar með mildu
veðri frá því um mánaðarmót, tekur nú við NV-átt í 500 hPa. Þetta er mikilvæg breyting og sést vel á
fyrra kortinu. Það sýnir hæð 500 hPa flatarins og frávik. Eins og staðan birtist
á kortinu að þá er hún “læst” og fylgir lágur flötur 500 hPa og með lágþrýstingi
langt úti á miðju Atlantshafi.
Fyrir vikið er NAO-vísirinn neikvæður og honum er spáð í þeim
fasa út mánuðinn og fram í maí. Umfjöllun
var í gær þess efnis að svo lágt gildi NAO í apríl hefði ekki sést frá því
1995, en spárnar í morgun eru hófstilltari hvað þetta varðar.
Þrýstifrávikin í 10 daga spánni á seinna kortinu eru
kunnugleg fyrir árstímann. Almennt séð hár þrýstingur á okkar slóðum og með háþrýstimiðju
yfir Grænlandi. En þó Grænlandshæðin sé
oft áberandi á vorin, er henn nú spáð stærri og víðáttumeiri, en alla jafna.
Í umræðunni á netinu sé ég að sumir telja þetta ástand vera síðbúna
afleiðingu af skyndihlýnunni í heiðhvolfinu sem varð um miðjan febrúar. Legg nú
engan dóm á það, en fyrir skemmstu benti ég á nokkuð skýrt samhengi við MJO í
Kyrrahafinu og afleiðingu þeirrar sveiflu við veður við N-Atlantshaf. Hægari
bylgjur í V-vindabeltinu og aukið útsláttur þeirra að 10-20 dögum liðnum. Tölulget samband er á milli MJO fasa 7 og
neikvæðu gildi á NAO 5-15 dögum síðar.
Veðrið sem fylgir hér á landi:
Fremur svalt, en eiginleg vorhret ólíkleg. Næturfrost regla, frekar en hitt, einkum um
norðan- og norðaustantil og þar hæg framþrón vorgróandans. Eins dregur úr
leysingu á hálendinu frá því sem verið hefur.
Í þurrara lagi verður sunnan- og vestantil, en kemur kannski ekki svo að
sök, því nokkuð hefur rignt síðustu vikurnar. Þar hins vegar margir sólardagar.
Hvað um framhaldið ?
Greina má línu í mánaðarspá ECMWF frá í gærkvöldi, en
dreifing safnspánna samt óþægilega mikil.
Hins vegar eru safnspá morgunkerslunnar nú 21. apríl,
eindregnari. Sýnir þrjá möguleika í spá fyrir miðvikudaginn 3. maí. Allir gera
þar ráð fyrir hæðarsvæði við landið og að mestu háþrýstisveigju í vindasvið háloftanna. Þessi spá gefur ekki tilefni til breytinga.
Staðviðri eru tíð í maí og veðurlag sjaldan þrálátara. Höfum
hugfast að meðalloftþrýstingur er að jafnaði hæstur í maí hér á landi og hann
er einnig þurrastur allra mánuða.
Spárnar fram í maí ríma ágætlega við þann veruleika!