EINSTÖKUM 9 DAGA GÓÐVIÐRISKAFLA AÐ LJÚKA

EINSTÖKUM 9 DAGA GÓÐVIÐRISKAFLA AÐ LJÚKA

Það var þriðjudaginn 13. maí sem tók að hlýna svo um munaði. Þá komst hámarkshiti á veðurstöð first upp fyrir 20 stig.  Hæðin fyrir suðaustan land var þá að styrkja sig í sessi og beindi í fyrstu til okkar hlýju lofti úr suðri. Hæstur varð hitinn 26,6°C á Egilsstaðaflugvelli þann 15. maí, sem jafnframt er nýtt hámarshitamet fyrir maí.  

Þegar við skoðum ágæt meðaltalskort, sem finna má á kortabrunni Veðurstofunnar, sést hún vel þessi eistaklega hagfellda staða veðurkerfanna síðustu daga.  Lítum betur á þessi kort sem öll sýna meðalástand síðustu 10 daga. Fyrsti dagurinn (12. maí) var annars eðlis, en hann fær engu að síður að fljóta hér með í meðaltalinu.

1.Fyrsta kortið sýnir hæðina þrálátu með miðju að jafnaði yfir Færeyjum. Þar hefur sannarlega einnig ríkt mikil sólarblíða líkt og hjá okkur. Samtímis kemur fram lægðarsvæði suðvestur í Atlantshafi.  Það hafði hvergi áhrif á landi nema syðst á Grænlandi. Loftþrýstingur hefur verið yfir 1025 hPa að jafnaði eða þetta 12 -15 hPa yfir meðallagi. Höfum í huga á maí er sá mánuður ársins sem loftþrýstingur mælist að jafnaði hæstur.

2. Næsta kort sýnir hæð 500 hPa flatarins. Hæðin teygir sig vel upp í háloftin. Miðjan uppi er örlítið vestar en við yfirborð. Þetta er vel mótuð fyrirstöðuhæð. Þær verða til þegar hlýtt loft úr suðri lokast af á norðurslóðum í eins konar straumhvirfli sem orðið hefur viðskila heimkynni sín sem eru alla jafna mun sunnar. Séu hæðirnar fyrirferðamiklar eða óvenju hlýjar valda þær talsverðum öfgum í veðri og ekki síst hita. Lituðu svæðin eru þykktarfrávik. Þykktin er vísir um hitagæði loftsins í lægri lögum.  Vel sést hvað lega hæðarinnar er hagfelld fyrir hlýju frávikin hér á landi.

Við erum alls ekki óvön fyrirstöðuhæðum í maí, bara ekki á þessum stað. Algengast er að sjá þær yfir Grænlandi. Þá fylgir þrálát og köld N-átt með þurrki.  Þar á eftir hæðarvæði staðsett djúpt suður af landinu. Þá  verður SV-átt stundum nokkuð hvöss. Hlýtt fyrir norðan og austan, en vætutíð sunnan- og vestanlands.

Nú þyrfti að þefa uppi álíka veðurstöðu og þessa  í maí eða snemmsumars.  Líklega þarf að fara nokkuð langt aftur, jafnvel áratugi til að finna eitthvað sambærilegt.

3. Þriðja kortið er af sama meiði, en hér með úrkomufrávikum.  Út frá miðju þetta öflugra hæða ríkir hægfara niðurstreymi. Þurrt loft berst að ofan og ský sem fyrir eru leysast upp (gufa upp).  Tókum eftir því þessa daga að þrátt fyrir um yfir 20 stiga hita og >30 stig við yfirborð  voru lítil sem engin ummerki um uppstreymi. Bólstraský mynduðust þannig ekki við og yfir fjöllum eins og oftast er á hlýjum dögum.  Rísandi loftið að neðan mætti ósýnilegu niðurstreyminu, gjarnin þannig á skarpt hitahvarf eða “lok” var viðvarandi í um 1.000 m hæð.  Víðfemur appelsínugulur liturinn á kortinu er órækt vitni um stórt áhrifasvæði háþrýstisvæðis eins og þessa.


4. Síðasta kortið er spákort sem ég birti með frétt 12. maí um hagfellda spá næstu tvær vikurnar. Gerði þar að umtalsefni mikla þurrkspá næstu 12 daga, einkum austanlands. Hún hefur sannarlega gengið eftir!  Á Dalatanga, austast á landinu, hefur ekkert rignt þessa daga, og reyndar ekki komð deigur dropi þar úr lofti frá 3. maí. Slíkt er afar óvenjulegt á þeim stað úti við ysta haf, ef segja má.