BREYTINGARNAR Í LOFTHRINGRÁSINNI
Nú í byrjun mánaðarins
er spáð miklum breytingum stöðu veðurkerfa
við N-Atlantshaf. Við það tekur lofthringrásin stakkaskiptum.
Í nokkrar vikur hefur hringrásin einkennst af háloftlægð fyrir suðvestan land og meginröstin í háloftunum lengst af fyrir sunnan land. Hlýindin hér orsökuðust af minni grein með SA-vindi hér yfir. Kort í 300 hPa fletinum sem sýnir þessa strauma frá 20. nóvember sl. er ágætis dæmi um þessa stöðu. Höfum í huga að loftþrýstingur hefur verið óvenju lágur í nóvember, einkum vestanlands. Það gerist þó alls ekki hafi verið storma- eða illviðrsamt í mánuðinum.
2. og 3. desember fyllist lægðin hér í suðvestri endanlega og hún hverfur af veðursviðinu. Hæðarbylgja myndast í straumnum og fyrirstað með þeim afleiðingum að hér verður spáð heilmiklu háþrýstisvæði a.m.k. framan af næstu viku. Seinna kortið ofan úr 300 hPa fletinum í um 9 km hæð sýnir spá 6. Desember. Hæðin yfir Grænlandi er allsráðandi. Sjáum líka hvernig meginstraumurinn tekur stóra sveigju til norðurs lengst norður yfir Grænland og til suðausturs hér fyrir norðan land.
Undir þessar háloftahæð
verður síðan öflug háþrýstisvæði og yfir miðju Íslandi er spáð 1044 hPa þennan
sama dag. Fyristöðuhæðir eins þessi, eða
á vondu máli sk. Grænlandsblokk, mjakast gjarnan til vesturs. Það hefur í för
með sér að á endanum opnast fyrir heimskautaloft úr norðri, ýmist bein yfir
landið eða hér skammt austur undan. Litlu má muna í spám dagsins og höfum í
huga á staðsetning hæðarinnar miklu skiptir þar mestu.
En það má vissulega
hafa gagn af langtímaspám. 3.vikna spá ECMWF frá 17. nóv. reiknaði með þessari
breytingu í lofthringrásinni. Sjáum það á síðasta kortinu að greinileg merki komu
þá fram um hæðarfrávik í háloftunum í vikunni 5. til 12. des. Þegar nánar er að
gáð reyndust 2/3 af safnspánum 50 vera á
þessari línu.
Óvissan hefur
hins vegar einkum snúið að hitafarinu, hvort hlýindin frá liðnum mánuði haldist
um sinn (í breyttri hringrás) eða hvort fari kólnandi. Eða öllu heldur hvenær
það komi til með að kólna og hitinn verði meira í takt við árstímann. Og aftur
er það umfram annað staðsetning meginhæðarinnar
sem þar er ráðandi.