ALSRÁÐANDI GRÆNLANDSHÆÐIN

ALSRÁÐANDI GRÆNLANDSHÆÐIN

Hún er um margt áhugaverð veðurstaðan sem nú er uppi.  Sjáum á 10 daga loftþrýstispá sem sýnir meðalþrýsting og frávik til 9. desember. Spá ECMWF er tekin saman í eitt kort á Brunni Veðurstofunnar. Gríðarmikilli hæð er spáð yfir Grænlandi og Ísland klárlega á áhrifasvæði hennar.

Grunnar lægðir langt suður í hafi sem beina raka og rigningu af Atlantshafi inn yfir suðvestanverða Evrópu.  Hjá okkur verður þrálát NA- og N-átt.  Fremur kalt í veðri, en alls ekki mikill gaddur heilt yfir, þó frostið kunni að bíta sums staðar í innsveitum.  Þegar svona háttar til snjóar „létt, en nánast út í eitt“ í útsveitum norðanlands. Þannig gæti með tímanum orðið nokkuð fannfergi s.s. á Siglufirði, Ólafsfirði, á Húsavík og austur með ströndinni.  Eins norðantil á Ströndum – eða  sem sagt áveðurs.  Hins vegar verður lítið úr fannkomu til landsins. 

Næsta kort sýnir spá um stöðuna í háloftunum (500 hPa) á norðurhveli, þriðjudaginn 5. des.  Þar má  sjá nokkur afar áhugaverð einkenni.

Á veturna  eru gjarnan tveir ríkjandi kuldapollar í háloftunum og eiga þeir báðir sín „ból“ ef svo má segja.  Trausti Jónsson kallar þann vestan Grænlands Stóra-Bola og hinn sem við höfum minna að segja af; Síberíu-Blesa.  Þegar Stóri-Boli er öflugur og fyrirferðamikill herja gjarnan djúpu lægðirnar á Atlantshafi og stormatíð er ríkjandi veðurlag hjá okkur.  Sjáum að Stóri-Boli er lítill og veiklaður um þessar mundir.  Hins vegar ber öllu meira á Síberíu-Blesa.  Fyrir utan það að valda ýmsum óskunda á heimaslóðum í Austur-Asíu, m.a. Í Japan og lægðum á N-Kyrrahafi, „lekur“ frá honum kuldinn til vesturs og í áttina til Evrópu, ekki  síst til Eystrasaltslandanna og Skandinavíu.

Takið líka eftir hæð í háloftunum norður af Svalbarða. Hún tengist Grænlandshæðinni nær yfirborði.  Óvenjuleg staða veðurkerfana á þessum slóðum og gerir ekkert annað en að auka enn á vetrarríkið í Finnlandi, Svíþjóð og N-Noregi.  Heimskautakuldinn berst úr austri og þettar er kjörstaða til hraðari hafísmyndunar í Barentshafi og við Svalbarða.  Þessi kuldi gæti alveg náð til okkar eftir krókaleiðum í fyllingu tímans.

Ein afleiðing þessa er síðan sú að mildara loft á greiða leið vestur fyrir Grænland.  Lægðirnar halda sig sunnarlega og áframhaldandi vætutíð í Frakklandi, Portúgal og á Spáni.  Norðar í Evrópu verða kuldaskil og frá þeim snjóar, ekki ólíklega í Niðurlöndum og N-Þýskalandi.   

Síðasta kortið er spákort fyrir laugardaginn 9. desember. Svipuð veðurstaða í grunninn, en hjá okkur spáð heldur austlægari vindi og eitthvað mildara. Lægðum er hins vegar spáð  langt í suðri. 


Safnspár ECMWF að morgni fimmutdags gefa til kynna að um 75% líkur séu áframhaldandi ríkjandi hæð yfir Grænlandi, en um 25% líkur aftur á móti á því að lægðirnar nái norðar og muni hafa bein áhrif hér frá og með helginni 8. til 10. desember.       

Og þá er þetta nú orðið ágætt......