ESv | 23.06.2022 14:56
30 ÁR FRÁ JÓNSMESSUHRETINU MIKLA

Hret af ýmsum toga eru ekki ólageng í júní.  Mest kveður að slíkum framan af mánuðinum á meðan kaldir hvirflar eru enn svipsterkir á norðurhjaranum. Eiga þá til að þvælast eitthvert suður á bóginn og vitanlega hitta þeir stundum á okkur með síðbúnum snjóum og frosti.   Hann er langur listinn af slíkum hretum fyrsti 10 dagana í júní, en eftir það fer tíðnin mjög lækkandi.  Þekktast þessa síðbúnu sumarhreta var það sem gerði þjóðhátíðardaginn, 17. júní 1959.  Um það má t.d. lesa hér: https://esv.blog.is/blog/esv/entry/897129/

1992 kom heldur snarpt og leiðinlegt Jónsmessuhret. Snjóaði þá víða á Norðurlandi.  Í Skeiðsfossvirkjun í Fljótum mældist þannig 14 sm snjór að morgni þess 24.  Meira að segja er sagt að snjóað hefði í efri byggðum Reykjavíkur yfir nóttina, en snjórinn verið bráðnaður við fótaferðartíma.   Moka þurfti marga fjallvegi, en ekki var heiglum hent að fá tæki til hreinsunar, enda þau komin í sumarverk.  Sem dæmi þurfti að moka á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur og mikill snjór var í Víkurskarði.  Í Mývatnssveit sliguðust allaufgaðar trjágreinar undan blautum snjó og ferðamenn á tjaldstæðinu flúðu inn eftir að tjöld þeirra fuku upp.

Þá urðu sjaldséða rafmagnstruflanir af völdum ísingar að sumri þegar raflínur í Hjaltadal sliguðust undan. RARIK sagði ísinguna hafa verið allt að  7 sm í þvermál.

Sé að í  Degi 25. júní er rætt við Einar nokkurn Sveinbjörnsson veðurfræðing:  „Það sem veldur þessu ástandi í veðurfarinu er að við erum að fá yfir okkur loft sem á heima á svæðinu langt fyrir norðan okkur, á svæðinu við Norður-Grænland og Norðurpólinn. Þetta er hluti af því ruglaða ástandi sem verið hefur á loftstraumunum í allt vor.“

Mogginn hafði líka samband:

 „.. Á Íslandi er 1-4 gráðu hiti norðanlands, en á Svalbarða, þar sem venjulega er miklu kaldara, er nú 8 gráðu hita. Loftstraumar á norðurhveli jarðar hafa verið mjög brenglaðir í vor og það hefur valdið afbrigðilegu veðri á mjög stóru svæði. T.a.m. hefur ekki fallið dropi úr lofti í Danmörku og Suður-Skandinavíu í fimm vikur, og verið frekar vætusamt við Miðjarðarhafi og jafnvel í Sahara-eyðimörkinni. Þá hefur verið mjög kalt við austurströnd Kanada og varla farið að vora þar enn. Við erum að fá okkar skammt af þessu afbrigðilega veðri“Höfum hugfast að á þessum árum var tíðin köld á Íslandi, stutt í frekar kaldan sjó norður undan og hafís ekki langt undan að vori. Þá vissi engin af þeim örlagaríku breytingum sem urðu um aldamótin þegar árferði fór batnandi með hærri sjávarhita umhverfis landið og ísinn hörfaði langt til norðurs. Þó kom eitt gæðasumar þarna inn á milli, eða 1991.

En engu að síður er áhugavert að spá í það hvað var í eiginlega í gangi þessa sólstöðudaga 1992.

Endurgreiningarkortin sýna nokkuð illúðlegan háloftahvirfill sem kom úr vestri og fór yfir landið þann 23. Hann lónaði síðan úti fyirr norðausturland og dró inn í sig enn kaldara loft úr norðri.   Lægðin sem fylgdi, má sjá á hinu kortinu að morgni 24. Hvasst var af  N- og NV. Mikið snjóaði um tíma, en það versta stóð ekki lengi og lægðin  fjarlægðist.


Gæti eitthvað þessu líkt endurtekið sig í dag?

En gætum við fengið áþekkt hret og þetta aftur svo seint vorsins?  Svarið er vissulega já, en með hlýnandi veðurfari lengist endurkomutíminn, og verður á að giska 30-50 ár (mjög óvísindaleg nálgun).  Auðvelt að hugsa sér svipaðar aðstæður veðurkerfanna, en oftast þí heldur fyrr, í maí eða byrjun júní. 

Jónsmessuhretið 1992 getur flokkast með allra síðbúnustu vorhretum og í dag með hlýnandi veðri væri e.t.v. réttara að reikna með álíka líkum á sambærilegu hreti frekar um  5. til 10. júní heldur  en um Jónsmessuna. 

En vissulega getur heimsótt okkur á þessum árstíma kaldur háloftapollur, en ólíklega væri hann jafn snarpur, en maður veit þó aldrei...

Reykjavík - Veðurspá
Í dag,
15:00
12°
0 mm
6 m/s
18:00
11°
1 mm
7 m/s
21:00
11°
1 mm
5 m/s
Á morgun,
09:00
11°
0 mm
4 m/s
15:00
12°
0 mm
3 m/s
Næstu dagar
0707
10°
3 mm
13 m/s
0808
10°
2 mm
8 m/s
0909
13°
9 mm
9 m/s