„26 STIG Á EGILSSTÖÐUM Á SUNNUDAG“
Í morgunútvarpi Rásar
1 í morgun var þessi tala held ég endurtekin þrisvar sinnum til að ítreka spá
Veðurstofunnar um allsvakalegt sumarveður austanlands á sunnudag.
Við höfum fylgst
með hlýju og sumarlegu lofti að undanförnu á sveimi fyrir sunnan og austan
landið, án þess að hafa náð hingað að marki.
Nú eru hins vegar ágætur líkur á því að virkilega hlýtt loft komi og
fari yfir landið.
Það kemur úr
suðvestri og er einn angi hitabylgjunnar sem nú ríkir á austurströnd N-Ameríku.
Sjáum rísandi
hæðarhrygg og hlýja bylgju í spám um háloftavinda. Á föstudagsmorgun er þannig
gert ráð fyrir mjög greinilegri slíkri bylgju austur af Nýfundnalandi og suður
af Grænlandi.
Þrálátur grænn
liturinn á þessu korti það sem af er sumri, verður þá enn yfir landinu. Sá litur vísar á svalt
loft og stutt í háloftlægðina. Á þessum
tímapunkti líklega um 5 til 7 stiga hiti eystra.
En bylgjan rís
áfram og ferðast til norðausturs. Berst hingað að Vesturlandi á laugardag og
þar með sumarveðri, einkum á laugardagskvöldið. Yfir austanvert landið á
sunnudag. Með hýja loftinu léttir líka mikið
til.
Hitaspárnar eru í
takt við hitagæði loftsins, þykktinni spáð um 560 dam, sem alla jafna gefur við
kjör aðstæður um 25 stiga hita þar sem hlýjast verður.
Blika spáir 20
stiga hita en hráspá og óleiðrétt spá frá ECMWF sýnir allt að 27 stiga hita
síðdegis á sunnudag á Egilsstaðaflugvelli.
En rétt er að
vara við of mikilli bjartsýni – landvindurinn (S eða SV-átt) verður á mörkum
þess að ná að halda nægjanlega aftur af hafgolunni norðan- og austanlands s.s.
á Héraði.
Um 60 líkur eru á
svo afgerandi spá í safnspánum frá Evrópsku reiknimiðstöðinni. Hins vegar gengur bylgjan áfram hratt til
austurs, svo aðeins verður um þennan eina dag að ræða og um að gera að nýta
hann vel!
- Allar líkur eru
síðan á að svalt loft af einhverju tagi nái aftur yfirhöndinni fyrstu dagana í júlí.