ÞINGVALLAVATN ÍSILAGT - FYRR EN OFT ÁÐUR
-Ekki er þó vitað hvort hann sé enn orðinn traustur!!
Þingvallavatn leggur seinna en öll önnur vötn. Það er vegna dýpis og hve mikið það er um sig. Það þarf að kólna niður undir +1°C allt niður á botn, áður en skæni tekur að myndast.
Fyrir tilviljun var ég staddur á Valhallarplaninu að kvöldi nýársdags innan um 5-6 rútur af ferðamönnum í norðuljósaleit. Eiginlega var ég frekar í leit að grimmdargaddi eftir hátíðarnar! Þarna um kvöldið var 15 til 18 stiga frost og hægviðri við vatnið.
Vatnshitann sem sjá má á vef Landsvirkjunar og mælir hita í inntaki Steingrímsstöðvar fór undir 1,0°C, einmitt á nýársdag. Þá var vatnið tilbúið í ísmyndun skv. "reglunni" þ.e. ef gerir þá frost í hægum vindi. Þau skilyrði voru einmitt að kvöldi nýarsdags og þá um nóttina. Gefum okkur því að fyrsti ísdagurinn hafi verið 2. janúar.
Fátítt er að Þingvallavatn leggi fyrir áramót. Það gerðist þó 1974 og aftur 1981 í kjölfar kaldrar haustveðráttu. Veturna 78,79 og 1980 lagði vatnið öll árin ýmist 2. eða 3. janúar.
2010 var var Þingvallavatn á ís fyrsta dag ársins að loknum nokkuð langvarandi froststillum. Brotnaði þó upp aftur að viku liðinni.
Nokkra vetur á þessari öld náði vatnið ekki að kólna nægjanlega og ekkert sást til íss. Önnur ár aðeins skæni í nokkra daga og núorðið heyrir það frekar til undantekninga að traustur ís sé a Þingvallavatni á Þorra og Góu eins og reglan var flesta vetur var hér áður fyrr.